Af hverju á þing?

Ég sækist eftir þingmennsku því að ég tel að ég get látið margt gott af mér leiða fyrir land og þjóð.

Það sem ég vil fyrst og fremst ná fram er réttlátara þjóðfélag þar sem allir fá tækifæri til að blómstra.
Í grunnstefnu Pírata er einmitt lögð gríðarleg áhersla á að tryggja borgararéttindi okkar, friðhelgi, gagnsæi,  tjáningarfrelsi og beint lýðræði.

Tækifæri fyrir alla
Það að tryggja jöfn tækifæri leiðir okkur að stórum verkefnum í menntamálum, heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, málefnum aldraðra og nýsköpun. Verkefnin eru óþrjótandi en ég hef góða innsýn og reynslu í öllum þessum málaflokkum.  Tækifæri einstaklingsins þarf að tryggja víða.  Það þarf að tryggja öllum tækifæri til að mennta sig.  Menntakerfið hefur markað stefnu um einstaklingsmiðað nám og skóla án aðgreiningar en peningana vantar, þeir fylgja ekki með.  Því er framkvæmd þessara mála í lamasessi.  Eldri borgarar, ömmur okkar og afar,  foreldrar okkar og ættingjar þurfa að fá tækifæri til að fara inn á hjúkrunarheimili ef þörf þykir.  Í dag er fyrirsjáanlegur mikil skortur á hjúkrunarheimilum og þar verðum við því að hefja uppbyggingu strax.  Við verðum að tryggja öllum jöfn tækifæri til að njóta síðustu æviáranna.

Innleiðum gagnsæið strax
Alþingi þarf að setja ríkisstjórninni mælanleg markmið og fylgjast með að þeim sé náð.  Þarna skiptir máli að hafa góðan hugbúnað sem tryggir þetta gagnsæi.    Ég veit hvernig á að gera þetta.  Ég hef þegar gert þetta.  Við eigum lausnirnar.  Ég treysti mér til að ræða við og sannfæra þingmenn allra flokka um að bæta störf Alþingis í sameiningu og finna betri lausnir.  Við náum þessu ekki nema að eiga gott samstarf,  vinna á gagnsæjan hátt og velja lausnir sem virka.  Við þurfum að byrja á að breyta Alþingi til að gera allt kerfið okkar skilvirkara.

Skilvirkni og opinber rekstur. Alþingi á að stýra ríkisstjórninni en ekki öfugt
Ég veit að ég get beitt mér fyrir aukinni skilvirkni á Alþingi.  Ef Alþingi virkar illa þá virkar ríkið okkar illa.  Alþingi á að stýra ríkisstjórninni en ekki öfugt.  Alþingi á að segja ríkisstjórninni hvað hún á að gera,  setja henni markmið.  Alþingi á upplýsa um stefnuna og semja við ríkisstjórn um rekstur ríkisins og skilgreina  hvaða árangri er ætlast til að ná.  Ráðherrar þurfa að kunna að reka risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða.  Ef við eigum enga þingmenn sem geta gert það þá á að sjálfsögðu að ráða hæfa utanaðkomandi einstaklinga til þess.  Þingmenn eiga að segja af sér þingmennsku ef þeir gerast ráðherrar.  Enginn á að vera með eftirlit með sjálfum sér.

Þekking á opinberri stjórnsýslu og opinberum rekstri
Ég hef unnið í opinberri stjórnsýslu í yfir 9 ár.  Ég hef verið verkefnastjóri i undirbúningi breytinga hjá Stjórnarráðinu.  Ég hef unnið sem ráðgjafi eða lausnaraðili fjölmargra opinberra fyrirtækja.  Ég hef fylgst með störfum Alþingis í 30 ár.  Ég þarf ekki fjögur ár til að átta mig á hvernig allt virkar á Alþingi.  Ég get strax einbeitt mér að nauðsynlegum róttækum umbótum í samvinnu við alþingismenn úr öllum flokkum.  Við eigum lausnirnar.  Byrjum að innleiða þær strax.

Tölvunörd, frumkvöðull og rekstrarmaður
Þegar þjóðin gengur til kosninga í haust þá þarf hún að velja sér fulltrúa sem hún treystir.  Ég hef mjög mikla þekkingu og 30 ára reynslu sem stjórnandi.  Ég er frumkvöðull, rekstrarmaður og tölvunörd, enda Pírati 🙂  Ég er stjórnandi og vanur að skipuleggja stór og flókin verkefni.  Ég tel þetta allt mikilvæga sölupunkta í kosningunum í haust (sjá nánar: Ferill).

Fylgi stefnu Pírata
Ég er í framboði hjá Pírötum af því ég fylgi stefnu Pírata.  Ég hefði allt eins getað skrifað stefnuna sjálfur.  Píratarnar eru ferskt afl sem er laust við óæskileg hagsmunatengsl.  Píratar eru flokkur skynseminnar, fólks sem er til í samræður, samtal og betri lausnir.  Gagnsæi og heiðarleiki skiptir mig miklu máli og það hefur verið einkenni Pírata.

Aukum fylgi Pírata
Ég er sannfærður um að ef ég kemst ofarlega á lista þá mun það hjálpa Pírötum við að ná auknu fylgi í haust.  Ég er þekktur innan stórra hópa í þjóðfélaginu og er tengdur verkefnum sem margir tengjast út um allt land.  Ég hef meðal annars kennt um 2.200 háskólanemum, starfað með yfir 4.000 manns hjá Kópavogsbæ síðustu 9 árin og verið ráðgjafi í stafrænum lausnum hjá Stjórnarráðinu.  Ég hef kynnst mörg þúsund einstaklingum í gegnum minn feril og mér vitanlega hefur það allt verið á jákvæðum nótum.  Ég var stofnandi og eigandi MySchool (Námsvefur) til ársins 2007, lausn sem er enn notuð víða og líklega hafa yfir 50.000 manns á einhverjum tímapunkti notað lausnina.

Það væri mikill heiður fyrir mig að vera í framlínusveit Pírata fyrir næstu Alþingiskosningar.