Birt á Pírtaspjalli Facebook 10.03.2021 kl. 07:33
Fyrir mér að vera Pírati er að vera hugsandi. Hugsandi og laus við skoðanakúgun. Fyrsta grunnstefna Pírata er að beita gagnrýnni hugsun og það er einmitt málið. Hver niðurstaða eða ákvörðun sem við tökum er einmitt byggð á forsendum, rökum. Ef forsendur breytast þá getur niðustaðan breyst. Þetta er háttur hugsandi manna. Þetta er háttur Pírata.
Skoðanakúgun er alltof algeng á Íslandi. Hún birtist í ýmsum myndum og meðal annars í því að menn þora ekki að bendla sig á neinn hátt við stjórnmálaafl vegna hræðslu um að þeim verði refsað á einhvern hátt. Þessu viljum við breyta og í grunnstefnu Pírata er einmitt lögð rík áhersla á Borgararéttindin og Tjáningarfrelsið. Það þarf að tryggja að allir hafi þessi réttindi en ekki bara sumir. Við þurfum einmitt að virkja alla í samtalið um betri lausnir. Það þurfa allir að fá tækifæri til að tjá sig. Þannig náum við árangri.
Spurt var 10.03.2021 kl. ca 17:00
Hvaða borgararéttindi þarf að tryggja að allir hafi sem ekki allir hafa? Og hver eru helstu vandamálin varðandi tjáningarfrelsið, Ingimar Þór?
Svarað 11.03.2021 kl. 10:35
Við viljum að embættismenn og sérfræðingar í stjórnsýslunni tjái sig um sem flest mál. Þeir eru auðvitað oft kallaðir til ef pólitíkin óskar eftir því. Það er hinsvegar ekki vinsælt að embættismenn og sérfræðingar tjái sig um málefnin að fyrra bragði. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum í raun að krefjast þess að embættismenn og sérfræðingar tjái sig að fyrra bragði um málefni sem þeir hafa mestu þekkingu á. Allavega að gera það að sjálfsögðum hlut. Það veitir aðhald fyrir þá valdameiri og hjálpar okkur við að taka upplýstari ákvarðanir.
Ekki misskilja mig, ég tel að þessi réttur sé varinn í lögum, þ.e.a.s. að sérfræðingar og embættismenn megi tjá sig. En í praxis þá forðast sérfræðingar og embættismenn að tjá sig opinberlega. Menn vilja einfaldlega ekki lenda í útistöðum við yfirboðara sína þó svo að almenningur og allt stjórnvaldið sbr. Alþingi eigi í raun rétt á að vita meira en orðið er opinbert. Með þessu er ég alls ekki að gagnrýna minn núverandi vinnustað. Ég held að þetta sé almennt vandamál og við eigum að reyna að gera það sem við getum til að breyta þessu. Virkjum sérfræðingana í stöðugri umræðu. Þeir hafa þekkinguna og við þurfum þeirra innlegg til að taka betri upplýstar ákvarðanir.