Árangur

Hér koma nokkur stafræn verkefni sem ég hef stýrt með góðum árangri:

Nightingale
2018 – 2020 Þróun á lausninni Nightingale, lausn sem heldur utanum árangur og meðal annars gagnvart heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.  Ný útgáfa er komin út og er lausnin nú þjónustulausn í skýinu (SAAS).  Ég átti frumkvæði að smíði lausnarinnar og hef tekið ríkan þátt í þróun hennar. Í byrjun var þetta einföld lausn sem ég skrifaði sjálfur í MS SQL en núna er þetta orðin laggskipt lausn með mörgum mismunandi lögum skv. bestu aðferðum hugbúnaðarþróunar. Hugmyndin var meðal annars þróuð í samvinnu við OECD sem hefur lofað virkni hennar. Hér er meðal annars skýrsla sem byggir á útreikningi Nightingale á vísitölu barnvænna sveitarfélaga.

CCQ
2018     Val og innleiðing á gæðakerfislausninni CCQ.     Lausnin er veftæk SAAS lausn frá IBM sem heldur utanum formlega útgáfu gæðaskjala.  Allir ISO 9001 ferlar Kópavogsbæjar eru komnir inn í lausnina og verið er að innleiða skráningu og meðferð frábrigða og áhættugreiningu skv. ISO 9001 staðlinum. Ég er jafnframt meðlimur í Gæðaráði Kópavogsbæjar.

Beint lýðræði með lausnum frá ibuar ses
2016     Val og innleiðing á beinum lýðræðislausnum frá ibuar ses. Í innleiðingunni skilgreinum töluvert af mikilvægum umbótum sem ibuar ses færðu inn í lausnina. Í kjölfarið innleiddum við einnig rafræna kosningakerfið frá þeim. Verkefnið gekk framar vonum og hefur þetta lýðræðisferli verið keyrt í þrígang árin 2016, 2018 og 2020. Ferlið er þetta:

1. Tillögugerð frá íbúum (í gegnum hugmyndavef)
2. Úrvinnsla tillagna, kostnaðarmat og sameining ef þörf þykir
3. Íbúar kjósa um tillögur (á kosningavef)
4. Talning atkvæða og birting niðurstaðna
5. Starfsmenn framkvæma tillögurnar sem kosnar eru áfram

Ég sit í kjörnefnd rafrænna kosninga í Kópavogsbæ. Kosningarnar voru framkvæmdar í samræmi við lög þar af lútandi þó það hafi í raun ekki þurft. Nánar hér.

Hvert fara peningarnir?
2015 – 2016 Þróun og innleiðing á Opnu bókhaldi Kópavogsbæjar – „Hvert fara peningarnir?“  (https://hfp.kopavogur.is ) Lausnin vinnur ofan á Vöruhúsi gagna hjá Kópavogsbæ.  Kópavogsbær var fyrsti aðilinn á Íslandi til að opna bókhaldið sitt.  Ég átti frumkvæðið af þessari lausn og samdi við háskólanema (sumarstarfsmenn) um smíði lausnarinnar í samvinnu við Kópavogsbæ.  Ég tók mjög virkan þátt í að hanna og þróa lausnina.

Átak í breyttum kennsluháttum
2015 – 2019 Ég fékk þetta verkefni í fangið meðal annars vegna áhuga míns á kennsluháttum en ekki síður vegna þess að innleiðingin var töluvert tæknidrifin.  Átakið gekk út á að nýta spjöld í kennslu og námi nemendanna.  Þetta verkefni heppnaðist mjög vel enda náðist að manna verkefnið vel með öflugum verkefnastjóra, tæknistjóra úr UT deild og mjög hæfum kennsluráðgjöfum.  Það var ekki einfalt að skipuleggja þessa umbreytingu í 9 skólum samtímis.  Það tókst samt mjög vel og nú hefur verkefnið verið fært alfarið undir Menntasvið Kópavogsbæjar með áframhaldandi tæknilegum stuðningi UT deildar.

Hvati
2015 Þróun og innleiðing á skýjalausninni FrisKó (Hvati) sem heldur miðlægt í skýinu utanum frístundastyrki 10 sveitarfélaga.  Ég hafði frumkvæðið að þessari lausn og hef verið mjög virkur í þróun hennar. Lausnin er einskonar undirbókhald yfir frístundastyrki allra barna á Íslandi.  Lausnin er samþættuð við Þjónustgátt Kópavogsbæjar og geta foreldrar leitað að námskeiðum sem henta þeirra börnum.

Myndavefur Kópavogs
2014 Val og innleiðing á myndavef Kópavogs.  Stýrði val á lausn og uppsetningu ferla við skönnun, skráningu og móttöku mynda hjá Kópavogsbæ.  Lausinin heldur utanum flokkun og  lýsingu myndanna og hægt er að senda inn ábendingar um lýsingar sem vantar.  Sagnfræðimentaður einstaklingur fer yfir ábendingarnar, staðfestir þær og uppfærir lýsingarnar í kjölfarið. Sjá hér dæmi um myndir sem flokkaðar eru undir Tónlist í Kópavogi:  https://kopavogur.datadwell.com/ps/afmaelissyning/listir/tonlist

Vöruhúsi gagna
2012 – 2020 Stýrði uppbyggingu á Vöruhúsi gagna hjá Kópavogsbæ og gagnaskiptistöð.  Hjá Kópavogsbæ eru í notkun um 90 mismunandi hugbúnaðarlausnir.  Til að hafa yfirsýn höfum við sett upp öflugt Vöruhús gagna.  Ég átti frumkvæðið að þessu verkefni og hef tekið ríkan þátt í uppbyggingunni.  Sjá dæmi um skýrslu sem unnin er úr gögnum vöruhússins hér.

Þjónustugátt Kópavogsbæjar
2012 Stýrði innleiðingu á þjónustugátt Kópavogsbæjar.  Allir íbúar hafa gott aðgengi að þjónustu Kópavogsbæjar og samskiptum við bæinn. Ég samdi um kaupin á lausninni, stýrði innleiðingunni og átti frumkvæði að aðlögun lausnarinnar.  Sjá:  https://thjonustugatt.kopavogur.is/

GoPro.net
2009 Kom að innleiðingu GoPro.net hjá Alþjóðabankanum í Washington, málakerfi sem aðlagað var að þörfum bankans.

Vefþórinn
2005 – 2007 Þróun á Vefþórnum, vefumsjónarlausn sem meðal annars keyrði vefverslanirnar BYKO.is, NevadaBob.is, agn.is og joifel.is.  Vefina logregla.is, tollur.is, reykjavik.is, kopavogur.is og 6o aðra vefi.

LibraLoan
2003 Ráðgjafi og með í upphafshönnun lánakerfisins LibraLoan, sem í dag er eitt mest notaða lánakerfi landsins.  Flestir bankar landsins nota þessa lausn í dag til að halda utanum lánasafnið sitt.

MySchool (Námsvefur)
2000 – 2007 Stýrði þróun á MySchool (Námsvefur), veftækri skólalausn sem sá um nemendabókhald, eLearning og annað innra starf skóla.  Lausnin er enn notuð nánast óbreytt hjá um 12 skólum.  Varlega áætlað þá eru enn 20 -30 þúsund manns að nota einhvern hluta lausnarinnar á hverjum degi enn í dag. Ég átti frumkvæðið að smíði þessarar lausnar fyrst hjá Háskólanum í Reykjavík og síðar með samning um yfirtöku í eigið fyrirtæki Betri lausnir ehf.  Ég tók ríkan þátt í þróun lausnarinnar þar til ég seldi hana árið 2007.

FBA-FX
1999 Tók þátt í þróun á FBA-FX, veftæku gjaldeyrisviðskiptakerfi sem leyfði fyrirtækjum að versla með gjaldeyrir yfir hvaða gengiskrossa  sem er að eigin vali.

Hlutabréfaútboðskerfi
1998 – 1999 Stýrði þróun á veftækri útboðslausn hlutabréfa.  Gerði almenningi kleyft að kaupa með einföldum hætti hlutabréf ríkisins í FBA og Búnaðarbankanum milliliðalaust.  Lausnin gerði það að verkum að um 100.000 íslendingar keyptu hlutabréf í Búnaðarbankanum.

GoPro í LotusNotes
1995 – 2000 Þróaði viðbætur við CRM kerfi í GoPro sem hélt utanum útlánaferilinn,  lánamörk viðskiptavina og samstæðu þeirra auk þess að halda utanum almenn samskipti við viðskiptavini.  Þessi lausn var síðar lögð niður en hefði getað stöðvað óeðlilegar lántökur lykil viðskiptavina banka árin 2006-2008.

Fáfnir
1989 – 2000 Tók við þróun lánakerfisins Fáfnir sem Verk- og kerfisfræðistofan hafði smíðað fyrir Iðnlánasjóð.  Á endanum var lausnin einstök fyrir það hve vel hún réð við margskonar flóknar fjármálaafurðir.  Fyrir utan ýmsa sjálfvirkni í skilmálabreytingum og sjálfvirkum frágangi viðaukasamninga þá skilaði lausnin meðal annars frá sér gjaldeyrisjöfnuði innlána og útlána og sjóðstreymisjöfnuði innlána og útlána. Hægt var að senda föx út úr kerfinu með formatti svipað og HTML í dag.